Saga SÍK

Upphafið

"Fimmtudaginn 16. febrúar 1928 var haldinn fundur í lestrarsal Háskóla Íslands (í Alþingishúsinu) til þess að ræða um stofnun „Sambands íslenskra karlakóra“. Fundinn sátu stjórnir Karlakórs K.F.U.M., Söngfélags stúdenta og Karlakórs Reykjavíkur."

Þannig greinir fundargerðarbók SÍK frá fyrsta fundinum, þar sem stofnun sambandsins var rædd. Að vísu var hugmynd þessi ekki ný, því að tveimur árum áður hafði þessu máli verið hreyft að tilhlutan Karlakórsins Geysis á Akureyri og nefnd verið skipuð til að undirbúa málið, en hana skipuðu Hallur kaupmaður Þorleifsson, Arreboe Clausen kaupmaður og Ólafur Þorgrímsson, síðar lögfræðingur, en hann var formaður nefndarinnar. Þessir þrír menn voru hver úr sínum kór, sem nefndir voru hér að framan.

Nefndin hafði samið lauslegt frumvarp til laga fyrir sambandið og sent áðurnefndum kórum, Þröstum í Hafnarfirði og Geysi á Akureyri. Síðan hafði Björn E. Árnason lögfræðingur og formaður Karlakórs K.F.U.M. endurskoðað það og bætt eftir þörfum. Frumvarpið var samþykkt breytingalítið og ákveðið að leggja það fyrir hin einstöku félög til umsagnar eins fljótt og auðið væri og áður en aðalstofnfundur yrði haldinn.

Aðdragandi þess fundar var sá, að söngmálanefnd sú, er vann að undirbúningi Alþingishátíðarinnar, vildi efna til söngmóts á Þingvöllum 1930. Þátttaka íslenskra karlakóra í þeim hátíðahöldum var fyrsta viðfangsefnið, sem hið fyrirhugaða samband átti að fjalla um.
Laugardaginn 10. mars 1928 var aðalstofnfundur SÍK haldinn í Bankastræti 4 (skriftofu Óskars Norðmanns) og sátu hann tveir fulltrúar frá hverjum hinna þriggja kóra, sem fyrst var getið. Þar voru ræddar smábreytingar á lagafrumvarpinu og flestar þeirra samþykktar. Óskar Norðmann var kjörinn formaður sambandsins, en meðstjórnendur þeir Björn E. Árnason, Ólafur Þorgrímsson, Hallgrímur Sigtryggsson og Skúli Ágústsson.

Hinn 15. mars hélt hin nýkjörna stjórn sinn fyrsta fund og var þar m.a. rætt um að skrifa öllum starfandi karlakórum á landinu og senda þeim sambandslögin, strax að lokinni prentun þeirra.

Fyrsta söngmótið 1930 og hátíðarkór


Á næstu stjórnarfundum var einkum fjallað um undirbúninginn að hátíðarsöngnum á Þingvöllum og fyrirhuguðu söngmóti. Söngmálastjóri gerði tillögur um verkefnaval fyrir Alþingishátíðina og uppástungur komu fram um Jón Halldórsson og Sigurð Þórðarson sem aðalsöngstjóra, og varð Jón fyrir valinu.
 
Allir kórarnir í SÍK tóku þátt í samsöngnum á Alþingishátíðinni: Vísir, Siglufirði (19 söngmenn), Karlakór Reykjavíkur (35) , Stúdentakórinn (14), Karlakór K.F.U.M. (37), Geysir (26) og Karlakór Ísafjarðar (19).  Auk þess sungu tveir síðastnendu kórarnir nokkur lög hvor um sig. Alls voru þetta 150 söngmenn.

Miðvikudaginn 2. júlí hófst svo söngmótið í Gamla bíói í Reykjavík og stóð þar í þrjá daga. Þá söng sambandskórinn inn á hljómplötu fyrir Columbia útgáfufélagið. Að síðustu var svo samkvæmi að Hótel Borg fyrir söngmennina og gesti þeirra.
Með þessu söngmóti var brotið blað í sögu íslensks karlakórssöngs, og ber þar fyrst að nefna fyrrnefnda hljómplötuupptöku, en jafnframt lifnaði áhugi á þessari söngstarfsemi og útgáfa á sönglögum fyrir karlakóra var mjög til umræðu á stjórnarfundum SÍK næstu árin. 

Á aðalfundi 20. júlí 1931 var Óskar Norðmann enn kjörinn formaður, en aðrir í stjórn þeir Skúli Ágústsson, Ólafur Þorgrímsson og Hallur Þorleifsson. Umsókn um inngöngu í sambandið hafði borist frá Karlakórnum Braga á Seyðisfirði og á næsta ári frá Karlakórnum Þröstum á Þingeyri. Stjórn SÍK var endurkjörin á aðalfundi 30. júli 1932. Á þeim fundi var rætt um að halda nýtt söngmót ekki síðar en árið 1934, og jafnframt komu fram hugmyndir um verðlaunaveitingar fyrir karlakórslög.

Söngmótið 1934

Á næstu fundum serust umræður aðallega um undirbúninginn að þessu söngmóti og fyrirhugaðan söng sambandsins inn á hljómplötur hjá Ríkisútvarpinu. Var útvarpsráði skrifað bréf og það mál reifað. Á aðalfundinum 4. júlí 1933 var m.a. rætt um söngmótið, söngkennslu og lagabreytingar sem miðuðu að því að kórar úr öllum landsfjórðungum hefðu fulltrúa í stjórn sambandsins. Þegar gengið var til stjórnarkjörs, var fráfarandi stjórn endurkjörin, en í hana bættust svo þeir Jón Vigfússon, fulltrúi Austurlands, Þormóður Eyjólfsson, fulltrúi Norðurlands og séra Sigurgeir Sigurðsson, fulltrúi Vesturlands. Þetta sama ár sótti Karlakór iðnaðarmanna um inngöngu í SÍK; undirbúningurinn að söngmótinu var þegar hafinn og Sigurður Birkis ferðaðist milli kóranna og raddþjálfaði.  Sigurður Þórðarson var valinn aðalsöngstjóri mótsins en Jón Halldórsson til vara. Sigurður vildi ekki taka það starf að sér, svo að Jón Halldórsson varð þar með réttkjörinn aðalsöngstjóri söngmótsins 1934.

Söngmótið var svo haldið síðustu dagana í júní og voru eftirtaldir kórar þátttakendur: Karlakór Reykjavíkur, Karlakór K.F.U.M., Karlakór iðnaðarmanna, Karlakór Ísafjarðar, Bragi, Vísir og Geysir. Þess má geta til gamans, að á þessu móti söng Karlakórinn Bragi tvö lög eftir Inga T. Lárusson, „Nú andar suðrið“ og „Brúðarvals“. Um þetta leyti bættist enn við kór í SÍK, í þetta skipti Karlakór Mývatnssveitar. 

Framhaldið

Áður en árið var á enda höfðu umsóknir borist frá 2 kórum enn. Það voru Svanir á Akranesi (33 félagar) og Ernir í Hafnarfirði (31). Á aðalfundinum 14. mars 1935 lágu svo fyrir 3 inntökubeiðnir; frá Karlakór alþýðu, Karlakór lögreglunnar og Kátum félögum, en þessir kórar störfuðu allir í Reykjavík.
Á næsta aðalfundi, 8. júlí 1935, voru mættir fulltrúar 12 kóra auk stjórnarinnar. Þar var m.a. rætt um söngkennslu og útgáfu söngmálablaðs.
Þegar hér var komið sögu voru 14 karlakórar í sambandinu og innan vébanda þess samtals 433 félagar. Útgáfa söngmálablaðs var enn á dagskrá á næstu stjórnarfundum og var talað um að fá Sigfús Einarsson til að annast ritstjórn þess. Af því varð þó ekki og tók Páll Ísólfsson orgelleikari að sér starfið. Ritið hlaut nafnið Heimir og hóf það brátt göngu sína. Salómon Heiðar sá um dreifingu og sölu.

Um þessar mundir hófust kynni SÍK og kórasambanda á hinum Norðurlöndunum og SÍK for að berast boð um að senda fulltrúa á ýmis söngmót þar ytra. Þá má þess enn geta að sambandið lét gera heiðursmerki og hlaut Sigfús Einarsson tónskáld það fyrstur Íslendinga, en af erlendum mönnum sænska tónskáldið Hugo Alfen og Lübeck landshöfðingi. Næstir í röðinni voru svo söngstjórarnir Sigurður Þórðarson og Jón Halldórsson. Enn fjölgaði í sambandinu, við bættist Karlakórinn Ægir í Keflavík. Hann var stofnaður 21. október 1934 og hafði á að skipa 22 söngmönnum.

Aðalfundurinn 1937 var haldinn 29. júní. Þar mættu fulltrúar frá 13 karlakórum og umsóknir um inngöngu bárust frá Karlakórnum Þrym á Húsavík og Ægi í Bolungarvík. Sigfús Einarsson flutti erindi um þátt kórsöngsins í þróunarsögu tónlistar á Íslandi. Það kom fram að útgáfa söngmálablaðsins Heimis var rekin með halla. Ólafur Pálsson var endurkjörinn formaður, Hallur Þorleifsson varaformaður, Árni Benediktsson gjaldkeri og Skúli Ágústsson ritari. Baldur Andrésson var ráðinn ritstjóri Heimis og Salómon Heiðar afgreiðslumaður. Sigurður Birkis var áfram söngkennari á vegum sambandsins, en honum til aðstoðar var ráðinn Þórður Kristleifsson.
Í upphafi árs 1938 sótti Karlakór Akureyrar um inngöngu í SÍK. Hann var þá væntanlegur í söngför til Reykjavíkur síðast í mars.

Hernámsárin

Fulltrúar frá 11 kórum sátu aðalfund SÍK árið 1940. Einn kór bættist þá í hópinn, Karlakór Reykhverfinga, en þennan fund sátu fulltrúar aðeins frá 7 kórum - augljóst merki þess að öldudalur var í nánd. Vegna hersetu og því þjóðfélagsumróti sem heimsstyrjöldin síðari hafði í för með sér, varð starfsemi kóranna á ýmsan hátt erfiðari. Atvinna var meiri en nokkru sinni fyrr, tómstundir færri, en því fleiri skemmtanir á boðstólnum. Nokkuð bar á því að kórar í sambandinu greiddu ekki tillög sín og þyngra varð undir fæti að komast að hjá útvarpinu með söngdagskrár, en þær höfðu fært SÍK nokkrar tekjur.

SÍK og Alþingishátíðin 1944

Á því merkisári 1944 kom til kasta SÍK að setja svip sinn á Lýðveldishátíðina á Þingvöllum. Í ritinu „Lýðveldishátíðin“ má lesa eftirfarandi klausu:
 
„Á þjóðhátíð, þar sem þjóðin fagnar fengnu    frelsi, hlaut að verða mikill söngur og til hans  þurfti að vanda. Þjóðhátíðarnefnd séri sér því til þriggja ágætra hljómlistarmanna, þeirra Páls Ísólfssonar tónskálds, Árna Kristjánssonar píanóleikara og Emils Thoroddsens tónskálds og bað þá að taka sæti í söngmálanefnd, er hefði það hlutverk, í samráði við Þjóðhátíðarnefnd, að ákveða  og undirbúa hljómlistardagskrá hátíðarinnar. Var Páll Ísólfsson skipaður formaður nefndarinnar. Söngmálanefnd gerði síðan tillögur til Þjóðhátíðarnefndar um fyrirkomulag söngs og hljóðfærasláttar, efni söngdagskrár og söngfólk.
 
Hátíðarkór á Þingvöllum var skipaður eftirfarandi kórum: Karlakórnum Fóstbræðrum, stjórnandi Jón Halldórsson, Karlakór Reykjavíkur, stjórnandi Sigurður Þórðarson, Karlakórnum Kátum félögum, stjórnandi Hallur Þorleifsson, Karlakór iðnaðarmanna, stjórnandi Robert Abraham og Karlakórnum Þröstum, Hafnarfirði, stjórnandi séra Garðar Þorsteinsson. Gert var ráð fyrir, að söngstjórarnir stjórnuðu þjóðhátíðarkórnum til skiptis. Einsöngvari þjóðhátíðarkórsns var valinn Pétur Á. Jónsson óperusöngvari. Að sjálfsögðu voru eingöngu valin íslensk lög og ljóð.“
Þetta sama ár hafði Karlakór Vestmannaeyja sótt um inngöngu í sambandið. 

SÍK kór á Norðurlöndum

Á aðalfundi SÍK 29. júní 1945 var samþykkt tillaga um að „sambandið gangist fyrir ca. 40 manna úrvalskórs til Norðurlanda á komandi vori eða síðar þegar aðstæður leyfa.“ Jón Halldórsson var valinn aðalsöngstjóri og honum falið að velja söngmennina.
Kórinn var þannig skipaður, að úr Fóstbræðrum voru ca. 30 menn en 10 úr Karlakórnum Geysi á Akureyri og var Ingimundur Árnason „1. varasöngstjóri“. Rögnvaldur Sigurjónsson lék með á slaghörpu en Jóhann Sæmundsson var fararstjóri. Hljómleikar voru haldnir á öllum Norðurlöndunum, að meðtöldum Færeyjum, og þótti ferðin takast með ágætum.
 
Tveir kórar bættust í sambandið á aðalfundi 1947. Það voru Karlakór Stokkseyrar og Kátir piltar frá Ólafsfirði. Um þetta leyti réði SÍK nýja söngkennara til starfa. Frá Svíþjóð kom Gösta Myrgart og kenndi kórfélögum norðanlands og auk þess Þröstum og Fóstbræðrum, en Birgir Halldórsson leiðbeindi yngri félögum tveggja kóra í Reykjavík. SÍK hafði og auga á Einari Sturlusyni sem söngkennara, en hann var þá væntanlegur heim frá söngnámi í Svíþjóð. Á þessum sama aðalfundi var m.a. rætt um  að efna til söngmóts og var það líka til umræðu á næsta aðalfundi og þá talað um 1950 sem heppilegt ár. Á aðalfundi 1949 bættist í hópinn enn einn kór, Karlakórinn Söngbræður á Selfossi

Söngmótið 1950

Söngmót var svo haldið sumarið 1950 og þótti merkisviðburður í sögu SÍK. Þetta mót stóð yfir
dagana 9.¬11 júní.





Í því tóku þátt þessir 7 kórar: Karlakór Akureyrar, söngstjóri Áskell Jónsson; Karlakórinn Fóstbræður, söngstjóri Jón Halldórsson; Karlakórinn Geysir, söngstjóri Ingimundur Árnason; Karlakór Reykjavíkur, söngstjóri Sigurður Þórðarson; Karlakórinn Svanir, söngstjóri Geirlaugur Árnason; Karlakórinn Vísir, söngstjóri Þormóður Eyjólfsson og Karlakórinn Þrestir, söngstjóri Ragnar Björnsson.

Annar merkur viðburður á þessu ári var heimsókn finnsks stúdentakórs sem efndi til samsöngva í Reykjavík, en móttaka hans og ýmis fyrirgreiðsla var í höndum SÍK.
Karlakórinn Heimir í Skagafirði, Karlakór Rangæinga og Karlakór Reykdæla bættust í hópinn á aðalfundinum 1951. - Ingibjörg Steingrímsdóttir var ráðin söngkennari til eins árs 1952, en á því ári vori skráðir í sambandið 17 kórar sem í voru um 500 söngmenn og hafði SÍK ekki fyrr haft jafn marga félaga innan sinna vébanda.

Söngmót 1953

Nú var skammt stórra högga á milli hjá SÍK, því að vorið 1953 var enn efnt til söngmóts í Reykjavík og nú í tilefni af 25 ára afmæli sambandsins. Samsöngur var haldinn í Gamla bíói 15. mars og í honum tóku þátt eftirtalir kórar: Karlakórinn Fóstbræður, stjórnandi Jón Þórarinsson, Karlakór Reykjavíkur, stj. Sigurður Þórðarson, Karlakórinn Svanir, stj. Geirlaugur Árnason, og Karlakórinn Þrestir, stj. Páll Kr. Pálsson. Aðalsöngstjóri var Ingimundur Árnason. Eftir samsönginn var svo haldin veisla góð, að öðru leyti en því, að minni SÍK varð að drekka þurrt eða því sem næst sökum vínbanns. 

Söngmót 1974

Þrátt fyrir að skammt væri milli söngmóta á sjötta áratugnum, þá liðu tveir áratugir fram að næsta söngmóti, en  söngmót SÍK var haldið í sambandi við hátíðahöldin á Þingvöllum 1974 í tilefni 1100 ára byggðar í landinu. Þátttaka í móti þessu var ekki mikil, en þátt tóku; Karlakór Reykjavíkur, Fóstbræður, Þrestir, Svanir og Karlakór Keflavíkur. Húsfyllir var og söngmönnum ákaft fagnað. Um kvöldið var svo samkvæmi á Hótel Borg, en daginn eftir var sungið á Þingvöllum. 

Söngmót 1978

SÍK stóð fyrir söngmóti í Laugardalshöll árið 1978. Alls tóku tíu kórar þátt í mótinu, einn þeirra var Karlakórinn Svanir frá Akranesi, sem þá hafði starfað af þrótti allt frá 1915, en að móti þessu loknu leið ekki langur tími þar til starf Svana lagðist niður og hefur karlakór ekki starfað síðan á Akranesi.

Önnur söngmót

Þegar SÍK var stofnað fyrir 80 árum voru samgöngur ólíkar því sem nú er og ferðir milli landshluta öllu meira fyrirtæki. Þannig ferðuðust t.d. sunnankórar með skipi til söngferðar til Akureyrar.

Nú eru samgöngur tíðari, öruggari og ótal dæmi um að kórar skjótist landshluta á milli til tónleikahalds og samfunda við bræðrakóra.

Þá hefur starf landshluta-samtakanna Kötlu og Heklu verið öflugt og hafa samtökin starfað af myndugleik. Katla, sem starfað hefur síðan 1975 hefur síðan haldið söngmót á 5 ára fresti, alls sex mót. Kötlumótið sem fram fór í Laugardalshöll árið 2000, varð stærsta karlakóramót sögunnar, en það met átti eftir að verða slegið.

Kötlumót 2000

Söngmóti SÍK árið 2005

Þrátt fyrir að starf karlakóra hafi verið með miklum þrótti frá SÍK móti 1978 eins og fram hefur komið, þá leið langur tími þar til næsta SÍK mót var haldið.

Að loknu Kötlumóti í Reykjavík árið 2000, var ákveðið að Karlakórinn Þrestir yrðu gestgjafar Kötlumóts árið 2005. Síðar lagði stjórn SÍK fram þá hugmynd að mótið yrði útvíkkað í SÍK mót, og brugðust Þrestir vel við þeirri hugmynd og hófu þegar undirbúning að slíku stórmóti. 

Síðar fór stjórn SÍK fram á við Sinfóníuhljómsveit Íslands að hún legði mótinu lið, og tók Þröstur Ólafsson, framkvæmdastjóri þegar vel í hugmyndina. Var þegar hafist handa við þá vinnu með aðstoð Helgu Hauksdóttur, listræns stjórnanda SÍ.
 
Sjöunda landsmót karlakóra var svo haldið í Hafnarfirði laugardaginn 29. október 2005. Söngstjóri mótsins var kosinn Jón Kristinn Cortez, stjórnandi Þrasta í Hafnarfirði, en Þrestir voru gestgjafakór mótsins sem þeir stóðu fyrir af miklum myndugleik, en vegna umfangs mótsins fóru tónleikarnir fram á þremur stöðum í Hafnarfirði.

Eftirtaldir kórar tóku þátt í mótinu; Karlakórinn Stefnir, Karlakór Keflavíkur, Karlakór Selfoss,  Karlakórinn Jökull, Raddbandafélag Reykjavíkur, Karlakór Reykjavíkur, Karlakór Eyjafjarðar, Karlakórinn Ernir, Karlakór Akureyrar-Geysir, Karlakór Hreppamanna, Karlakór Kjalnesinga, Karlakór Kópavogs, Karlakór Dalvíkur, Karlakórinn Fóstbræður, Karlakór eldri Þrasta, Karlakórinn Þrestir. Auk þess var sérstakur gestakór mótsins, Tórshavnar Manskór  frá Þórshöfn í Færeyjum.

Forseti Íslands gengur á salinn ásamt formanni

Mótinu lauk svo með söng hátíðarkórsins auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en aðkoma hljómsveitarinnar var mikilvægur þáttur í því að skapa mótinu verðskuldaðan metnað. 

Stjórnendur hátíðarkórs og hljómsveitar voru: Jón Kristinn Cortez, Þröstum, Guðmundur Óli Gunnarsson, Karlakór Dalvíkur  og Árni Harðarson Karlakórnum Fóstbræðrum.


SÍK og Karlakórsins Þrasta
Að tónleikum loknum var haldið upp á daginn með mikilli veislu sem fram fór í íþróttahúsinu að Ásvöllum þar sem fagnað var í mat og drykk fram eftir kvöldi.   

Stjórn SÍK heiðraði af þessu tilefni fjölda söngmanna, bæði með gullmerki SÍK, auk viðurkenningarskjala.

Karlakórinn Þrestir fengu verðskuldað lof fyrir undirbúnings þessa móts, enda stærsta og umfangsmesta Söngmót SÍK til þessa.  Eru þær þakkir ítrekaðar hér.

Framtíðin

Stjórn SÍK vinnur nú að hugmynd um afmælistónleika á haustmánuðum afmælisárs. Uppi er hugmynd um að haldnir verði tónleikar sunnan- og norðanlands á sama tíma til að fagna þessum tímamótum.

Þá hefur stjórn SÍK varpað fram þeirri hugmynd til stjórnar Kötlu að Kötlumót sem fram skal fara árið 2010 í Árnessýslu, verði útvíkkað í söngmót SÍK, líkt og gert var árið 2005 í Hafnarfirði.
Sú hugmynd er til skoðunar.  

Starf karlakóra er gróskumikið um þessar mundir og er í raun engin ástæða að ætla annað en svo verði um ókomin ár.

Með kærri söngkveðju, Eyþór Eðvarðsson, Formaður SÍK.