Karlakórinn Kári

Sagan

Kátt syngja karlar í Kára
Karlakórinn á fyrsta gigginu á barnaballi Aftanskins, félags eldri borgara.Það er ekki á hverjum degi sem karlakór er stofnaður, allavega ekki hér í bæ, þó mikið sé sungið um land allt.  Raddir karla þykja fagrar en þó aldrei fegurri en þegar þær eru margar saman í hóp.  Hér hefur þó ekki verið starfandi karlakór lengi en nú hefur orðið breyting á.  Það er Sigurður Páll bassi og trillukarl sem er ásamt Þórði Þórðarsyni prímusmótorinn í stofnun kórsins.  Hugmyndin vaknaði í samtali þeirra og  Sigurður Páll fór af stað og ákvað að reyna að hóa saman í karlakór.  Það sýndi sig að áhuginn var fyrir hendi og hafa karlarnir verið flestir 28 á æfingum þar sem hæstráðandinn er þó kona en það er Hólmfríður Friðjónsdóttir sem er stjórnandi kórsins.  Í kórnum eru einnig fimm karlar úr Grundarfirði og spurning hvort fleiri komi ekki víðar af nesinu.

Karlakórinn er nú þegar búinn að koma fram tvisvar sinnum og mun vonandi syngja á hátíðisdögum sumarsins sem framundan eru en næsta verkefni er þó í afmæli eins kórfélagans í Grundarfirði.  Á þriðjudaginn var svo kórnum valið nafnið Karlakórinn Kári og það er vel við hæfi í bæ lognsins.  Að sögn Sigurðar Páls er fyrsta markmiðið varðandi kórinn að festa hann í sessi og síðan verður farið að gera önnur plön.  Það þarf ekki að taka það fram að fleiri karlar eru velkomnir í kórinn, það eru víst eitthvað af skyrtum til enn því 30 stk. voru pantaðar.

Stjórnandanum Hólmfríði Friðjónsdóttur líður greinilega vel með sínum karlakór.Karlakórinn Kári verður með vortónleika á Snæfellsnesi á næstu dögum. Kórinn hefur verið starfræktur frá því haustið 2007 en hann skipa söngvarar úr Grundarfirði og Stykkishólmi. Tónleikarnir verða í Stykkishólmskirkju miðvikudaginn 19. maí, Grundarjarðarkirkju fimmtudaginn 20. maí og Ólafsvíkurkirkju miðvikudaginn 26. maí. Allir tónleikarnir hefjast kl. 20 og er aðgangseyrir 1500 kr. Kórstjórnandi er Hólmfríður Friðjónsdóttir og undirleikari er Zsolt Kautor. Þá verður Lárus Ástmar Hannesson með einsöng.