Karlakórinn Jökull

Sagan

Á bændafundi árið 1972 var ákveðið að stofna karlakór með þátttöku manna úr sem flestum hreppum Austur-Skaftafellssýslu. Æfingar hófust 4. janúar 1973 og hefur Karlakórinn Jökull starfað óslitið síðan. Sigjón Bjarnason frá Brekkubæ var fyrsti stjórnandi kórsins. Hann hélt um tónsprotann í tuttugu ár, eða til ársins 1992. Þá tók núverandi kórstjóri, Jóhann Morávek við stjórn karlakórsins Jökuls. Guðlaug Hestnes hefur gegnt starfi undirleikara kórsins frá árinu 1975 eða um 34 ára skeið.

Karlakórinn Jökull hefur haldið tónleika víða um land, á Norðurlöndunum og á Ítalíu. Kórinn er einn af stofnendum Kötlu, Sambands sunnlenskra karlakóra og hefur tekið þátt í öllum mótum þess. Karlakórinn Jökull hefur komið sex sinnum fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og var raunar fyrsti áhugamannakórinn sem söng með hljómsveitinni. Kórinn hefur gefið út þrjá geisladiska, "Í jöklanna skjóli", “Það kom söngfugl að sunnan” og "Hvít er borg og bær".